Enski boltinn

Hodgson: Vona að ég fái tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, segir í samtali við enska fjölmiðla vonast til að hann fái nægan tíma til að láta til sín taka hjá félaginu.

Hodgson tók við liðinu í sumar en liðinu hefur þó gengið illa undir stjórn hans í haust. Skipt var um eigendur eftir að tímabilið var hafið og ákváðu þeir að skipta ekki um stjóra.

„Ég vona að einn daginn takist mér að móta liðið eftir eigin höfði," sagði Hodgson. „Það gleymist stundum að ég hef ekki verið mjög virkur á leikmannamarkaðnum."

„Leikmennirnir sem eru hjá félaginu hafa tekið nýjum stjóra einstaklega vel en þetta eru sömu leikmennirnir og áhorfendur hafa séð síðustu ár."

Nokkrum leikjum Liverpool var frestað í desember og því útlit fyrir miklar annir hjá leikmönnum í janúar. Liðið mætir Manchester United í ensku bikarkeppninni um helgina og miðað við úrslitin í þeim leik gæti liðið þurft að spila níu leiki alls í janúarmánuði.

Hann segir því að hann gæti þurft að hvíla þá Fernando Torres og Steven Gerrard í einhverjum leikjum.

„Ég vona að stuðningsmennirnir skilji það. Fernando Torres er nýbúinn að jafna sig á mjög alvarlegum hnémeiðslum og Steven Gerrard er hætt til að meiðast ef hann spilar of mikið."

„Ég verð því að stóla á þá sem virðast geta spilað endalaust - Duracell-kanínurnar. Leikmenn eins og Dirk Kuyt og Lucas Leiva."

„Sem betur fer erum við ekki að glíma við of mörg meiðsli eins og er. Það verður vonandi til þess að við náum að koma okkur á réttu brautina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×