Enski boltinn

Hodgson: Fékk aldrei að setja mark mitt á liðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson og Steven Gerrard.
Roy Hodgson og Steven Gerrard. Nordic Photos / Getty Images
Roy Hodgson segist vera þakkláttur fyrir þann tíma sem hann fékk í starfi knattspyrnustjóra Liverpool. Hann var rekinn í morgun frá félaginu og Kenny Dalglish mun stýra því til lok leiktíðarinnar.

„Það voru mikil forréttindi fólgin í því að verða beðinn um að stýra Liverpool. Það er heiður fyrir hvern sem er að fá að stýra liði með jafn ótrúlega sögu, frábæra hefð og stuðningsmenn. Liverpool er eitt stærsta félagið í heimsknattspyrnunni," sagði Hodgson á heimasíðu félagsins í morgun.

„Hins vegar voru síðustu mánuðurnir einhverjir þeir erfiðustu á mínum ferli," bætti hann við en hann tók við félaginu nú í sumar.

„Ég er afar leiður yfir þeirri staðreynd að hafa aldrei fengið að setja mark mitt á liðið og að hafa ekki fengið tækifæri til að kaupa leikmenn í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn. Þannig hefði ég tekið þátt í því að byggja félagið aftur upp með beinum hætti."

„Hjá félaginu eru nokkrir leikmenn sem eru í heimsklassa. Það hefur verið frábært að fá að starfa með þeim sem og öllum leikmannahópnum. Ég óska leikmönnum alls hins besta á síðari hluta tímabilsins."

„Ég vil þakka þeim sem ég hef starfað náið með síðustu mánuði hjá félaginu en þeir hafa sýnt mér mikinn stuðning á erfiðum tímum."

„Að lokum vil ég þakka stuðningsmönnum Liverpool. Ykkar ástríða og hollust mun sjá til þess að Liverpool mun aftur komast í fremstu röð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×