Enski boltinn

Benitez: Torres er 70 milljóna punda virði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, segir að félagið hefði átt að fara fram á meiri pening fyrir Fernando Torres en þær 50 milljónir punda sem Chelsea greiddi fyrir hann.

Torres var seldur til Chelsea á mánudagskvöldið en Benitez, sem stýrði Liverpool þar til að síðasta keppnistímabili lauk í ensku úrvalsdeildinni, metur Torres á 70 milljónir punda.

„Ég held að við höfum verið að tala um 70 milljónir punda í fyrra," sagði Benitez í samtali við enska fjölmiðla en hann var nú fyrr á tímabilinu rekinn frá Inter á Ítalíu.

„Nokkrir sögðu að ég mætti eiga von á slíku tilboði í Torres. Hann var að spila betur þá en í ár en hann er samt mjög góður leikmaður. Chelsea greiddi háa upphæð fyrir hann en ég held að hún hefði getað verið enn hærri."

Benitez vildi ekki útiloka að hann taki aftur við Liverpool í framtíðinni. „Það er alltaf draumur að vera knattspyrnustjóri Liverpool. Ég veit að Kenny [Dalglish] er að standa sig mjög vel og ég verð því bara að sætta mig við að horfa á leikina."

„En ég er ekki í vafa um að ég myndi aftur vilja þjálfa Liverpool í framtíðinni ef ég fengi tækifæri til þess."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×