Enski boltinn

Vieira: Tevez er eins góður og Thierry Henry var

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/AP
Patrick Vieira hrósaði Carlos Tevez mikið í viðtali við Daily Star í dag og segir að Argentínumaðurinn sé jafnmikivægur fyrir Manchester City og Frakkinn Thierry Henry var fyrir Arsenal á sínum tíma. Henry raðaði inn mörkum á meðan Arsenal raðaði inn titlum á átta árum hans hjá félaginu.

Tevez hefur þegar skorað 41 mörk í 58 deildarleikjum með Manchester City liðinu þar af 18 mörk í 23 leikjum á þessu tímabili. Henry skoraði 174 mörk í 254 deildarleikjum með Arsenal á árunum 1999 til 2007.

„Ég tel að Carlos sé eins góður og Thierry Henry var," sagði Patrick Vieira í viðtali við Daily Star.

„Ef lið ætlar sér að vinna titla þá þarf það framherja sem skorar 20 til 25 mörk á tímabili eða jafnvel enn fleiri mörk. Það eru frábærar fréttir fyrir City að liðið hefur slíkan leikmann í Carlos. Hann er leikmaður sem getur unnið fyrir þig leiki," sagði Vieira ennfremur.

„Ef við ætlum að vinna meistaratitilinn eða bikarinn þá þurfum við á leikmanni eins og Carlos að halda," sagði Vieira.

Næsti leikur Manchester City er á móti Manchester United um næstu helgi en City er fimm stigum á eftir nágrönnum sínum. „Það er enn löng leið eftir en við trúum á okkur sjálfa," sagði Vieira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×