Enski boltinn

Stoke í undanúrslit eftir sigur gegn West Ham

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Frédéric Piquionne skorar mark sitt í dag.
Frédéric Piquionne skorar mark sitt í dag. Nordic Photos/Getty Images
Stoke er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir 2-1 sigur á West Ham í bráðfjörugum leik. Stoke er þar með komið undanúrslit ásamt Manchester United og Bolton en seinna í dag kemur í ljós hvort það verður Man. City eða Reading sem kemst í undanúrslit.

Leikurinn var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar Stoke voru búnir að fá tvö mjög góð færi. Matthew Etherington skallaði boltann í hendurnar á Robert Green úr sannkölluðu dauðafæri og hefði átt að koma heimamönnum yfir.

Stoke náði hins vegar forystunni á 12. mínútu og var Þjóðverjinn Robert Huth þar að verki. Rory Delap átti langt innkast inn í teig þar sem Huth kom askvaðandi og skallaði boltann örugglega í netið framhjá Green í marki West Ham. Sannkallað "Stoke-mark".

West Ham jafnaði leikinn á 30. mínútu með umdeildu marki frá Frédéric Piquionne sem virtist leggja boltann fyrir sig með hendinni áður en hann vippaði boltanum yfir Thomas Sørensen í marki Stoke og ýtti boltanum svo yfir marklínuna með brjóstkassanum. Piquionne meiddist er hann skoraði markið og varð að fara af velli.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með miklum látum því Stoke fékk afar ódýra vítaspyrnu eftir aðeins 15 sekúndna leik. Etherington féll þá við í teignum eftir viðskipti við Scott Parker. Mike Jones dæmdi vítaspyrnu sem verður að segjast að var afar strangur dómur. Etherington fór sjálfur á punktinn en Green varði vítaspyrnuna frábærlega.

Danny Higginbotham kom Stoke aftur yfir á 62. mínútu leiksins með marki úr aukaspyrnu sem fór í gegnum varnarvegg West Ham og Green réð ekki við í markinu. Klaufalegur varnarleikur hjá West Ham. Victor Obinna var ekki langt frá því að jafna leikinn skömmu síðar en Sörensen varði frábærlega í marki Stoke.

Matthew Upson átti skalla í slánna á 86. mínútu eftir hornspyrnu og Carlton Cole átti gott skot sem Sörensen varði undir lok leiksins. Þetta er í fjórða sinn sem Stoke kemst í undanúrslit í sögu félagsins.

Stoke – West Ham 2-1

1-0 Robert Huth (12.)

1-1 Frédéric Piquionne (30.)

2-1 Danny Higginbotham (62.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×