Fótbolti

Mutu fór á fyllerí tveimur dögum fyrir landsleik og fer í ævibann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrian Mutu samdi við Cesena í júní.
Adrian Mutu samdi við Cesena í júní. Mynd/Nordic Photos/Getty
Adrian Mutu er heimsfrægur fyrir óreglu sína og það að koma sér í vandræði utan vallar. Hann fór þó endanlega yfir strikið í vikunni og hefur af þeim sökum leikið sinn síðasta landsleik fyrir Rúmeníu.

Adrian Mutu hitaði upp fyrir landsleik á móti San Marínó í gær með því að fara á fyllerí á mánudagskvöldið. Það sem verra er að hann dró liðsfélaga sinn Gabriel Tamas (leikmann West Bromwich) með sér í partý.

Victor Piturca, landsliðsþjálfari Rúmeníu, harmar það að missa sterkan leikmann en hann segist ekki hafi átt aðra möguleika í stöðunni. Hvorki Mutu né Tamas spiluðu leikinn sem Rúmenar unnu naumlega 1-0 með sigurmarki átján mínútum fyrir leikslok.

Adrian Mutu lék alls 70 landsleiki fyrir Rúmeníu og skoraði í þeim 32 mörk. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2000 þegar hann var 21 árs gamall. Mutu var búinn að skora 3 mörk í 3 landsleikjum á þessu ári.

Mutu er líklega þekktastur fyrir það þegar hann var rekinn frá Chelsea fyrir að falla á lyfjaprófi árið 2004 vegna kókaínneyslu. Hann var líka dæmdur í níu mánaða bann í janúar fyrra fyrir að falla á lyfjaprófi þegar hann var leikmaður Fiorentina.

Mutu hefur samt alltaf snúið til baka inn á fótboltavöllinn og er núna á málum hjá nýliðum Cesena í ítölsku A-deildinni. Hann gerði tveggja ára samning við félagið í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×