Fótbolti

Dýrkeypt fyllerí: Dæmdir í tíu leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jean Beausejour.
Jean Beausejour. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fimm landsliðsmenn Síle hafa verið dæmdir í tíu leikja bann fyrir að mæta of seint og undir greinilegum áhrifum áfengis á hótel liðsins fyrir leik í undankeppni HM í síðasta mánuði.

Miðjumennirnir Arturo Vidal, Carlos Carmona, Jorge Valdivia og Jean Beausejour og varnarmaðurinn Gonzalo Jara voru allir settir út úr hópnum fyrir leikinn á móti Úrúgvæ sem Síle tapaði 0-4.

Auk þess að mega ekki taka þátt í næstu tíu landsleikjum Síle þá fengu leikmennirnir einnig peningasekt. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið dýrkeypt fyllerí hjá þeim félögum en knattspyrnusamband Síle tók mjög hart á þessu máli.

Síle mætir Paragvæ í vináttulandsleik í kvöld en þar verða aðeins með leikmenn sem spila í heimalandinu. Næstu leikir Síle í undankeppni HM eru á móti Bólivíu og Venesúlea í júní en Síle er eins og er í 5. sæti riðilsins, stigi á eftir Úrúgvæ, Argentínu og Venesúela.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×