Fótbolti

Ótrúleg uppákoma í Hollandi - markvörður sparkaði í áhorfanda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreint ótrúlegt atvik átti sér stað í hollensku bikarkeppninni í kvöld þegar að stórliðin Ajax og AZ Alkmaar áttust við. Vegna þessa var leikurinn blásinn af á 37. mínútu.

Eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan hljóp áhorfandi inn á völlinn og réðst á Esteban Alvarado, markvörð AZ. Markvörðurinn svaraði fyrir sig, sparkaði hann niður og svo aftur á meðan hann lá í grasinu.

Dómari leiksins var ekki hrifinn af þessu og sýndi honum rauða spjaldið, við litla hrifningu leikmanna AZ og síst Alvarado sjálfs. Þjálfari liðsins, Gertjan Verbeek, kallaði sína menn umsvifalaust af velli og því varð að blása leikinn af.

Staðan var þá 1-0 í leiknum fyrir Ajax en Kolbeinn Sigþórsson spilaði ekki með liðinu þar sem hann er meiddur. Jóhann Berg Guðmundsson var á meðal varamanna AZ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×