Enski boltinn

Kemur ekki til greina að lána Sturridge

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að það komi ekki til greina að lána Daniel Sturridge frá félaginu og helst þurfi að bæta við leikmannahópinn nú í janúar.

Sturridge hefur verið orðaður við mörg lið að undanförnu, til að mynda Liverpool. Hann hefur ekki verið fastamaður í liði Chelsea og mun hafa óskað þess að komast að hjá öðru félagi til að öðlast meiri reynslu.

„Sturridge er góður leikmaður og mun fá fleiri tækifæri í byrjunarliðinu hjá okkur. Hann hefur ekki beðið um að fá að fara annað á lánssamningi. Ef hann myndi bera þá bón fram myndi ég hafna henni umsvifalaust," sagði Ancelotti.

Chelsea hefur gengið skelfilega í ensku úrvalsdeildinni að undanförnu og aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum. Liðið er þó enn að keppa í ensku bikarkeppninni og komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

„Við erum ekki farnir að örvænta enn," sagði Ancelotti. „Ef enginn meiðist getum við tekið þátt í öllum þremur keppnum og barist um alla titlana."

„En þegar Meistaradeildin hefst aftur í febrúar er mjög mikilvægt að allir verði heilir í hópnum. Alex þarf þá að vera kominn aftur á fullt."

„Það er af þeim ástæðum að við erum að skoða það að styrkja liðið. Það verða allir leikir mjög mikilvægir eftir því sem líður á tímabilið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×