Fótbolti

Kolbeinn valinn besti leikmaður helgarinnar í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/AFP
Það kom ekki mörgum á óvart að Kolbeinn Sigþórsson skildi vera kosinn leikmaður helgarinnar í hollensku úrvalsdeildinni af hinu virta fótboltablaði Voetbal International.

Kolbeinn skoraði fimm mörk í 6-1 sigri AZ Alkmaar á VV Venlo á laugardagskvöldið en þessi tvítugi strákur var búinn að skora þrjú mörk eftir aðeins 26 mínútur og búinn að innsigla fimmuna sína eftir 69 mínútur.

Kolbeinn átti að sjálfsögðu allar fyrirsagnir í hollensku fjölmiðlunum og hér fyrir neðan eru nokkur góð dæmi um þær.

Það var líka mikið gert úr því að hann var fyrsti leikmaður AZ Alkmaar síðan 30. janúar 1977 til þess að skora fimm mörk í einum leik og jafnframt aðeins annar erlendi leikmaðurinn sem nær því en hinn var Brasilíumaðurinn Alfonso Alves árið 2007.

"Íslenska eldfjallið" - Telegraaf

"Sigþórsson skaut niður VVV" - ANP

"Sigþórsson fór fyrir góðu AZ-liði" - NHD.nl

"Íslendingurinn Sigþórsson fór á kostum" - VI.nl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×