Fótbolti

Barnið í Bebeto-fagninu að æfa með Flamengo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brasilíumaðurinn Bebeto öðlaðist heimsfrægð þegar hann tileinkaði marki sínu gegn Hollandi á HM 1994 nýfæddu barni sínu á eftirminnilegan máta. Sonurinn, Matheus, er nú orðinn sautján ára gamall og byrjaður að æfa með brasilíska liðinu Flamengo.

„Fagnið" er eitt það frægasta í knattspyrnusögunni og fjölmargir knattspyrnumenn hafa leikið það eftir þegar þeir sjálfir eru nýbakaðir feður. Myndband af upprunalegu atvikinu á HM 1994 má sjá hér fyrir ofan.

Matheus þykir efnilegur knattspyrnumaður og hefur áhuga á að fylgja í fótspor föður síns sem varð heimsmeistari með brasilíska landsliðinu í þessari sömu heimsmeistarakeppni.

Matheus leikur sem sóknarsinnaður miðjumaður og æfði í vikunni í fyrsta sinn með unglingaliði Flamengo. Faðirinn, Bebeto, var að sjálfsögðu viðstaddur en hann lék sjálfur með liðinu í tvígang, fyrst frá 1983 til 1989 og svo aftur árið 1996. Bebeto var sóknarmaður sem skoraði alls 39 mörk í 79 landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×