Enski boltinn

Villas-Boas: Chelsea getur alveg keppt við Manchester-liðin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
André Villas-Boas, stjóri Chelsea.
André Villas-Boas, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
André Villas-Boas, stjóri Chelsea, óttast ekki frábæra byrjun Manchester-liðanna í ensku úrvalsdeildinni og segir allt að sex félög muni berjast um meistaratitilinn í vetur. Manchester-liðin hafa fullt hús eftir fyrstu þrjá leikina og hafa skorað saman 25 mörk í þeim.

Chelsea er sem stendur í fjórða sæti með sjö stig af níu mögulegum en liðið gerði markalaust jafntefli við Stoke í fyrstu umferðinni. Síðan þá hefur liðið unnið sigra á West Brom og Norwich og framundan er leikur við Sunderland í dag.

Villas-Boas var spurður út í byrjun Manchester-liðanna. „Þetta er gott hjá þeim. Þau hafa skorað mikið af mörkum sem er gott fyrir enska knattspyrnu. Við ætlum okkur bara að skora fleiri mörk en mótherjarnir. Við erum tveimur stigum á eftir þeim og þurfum að vera nær þeim. Okkar markmið er að stytta bilið og verða betri. Við náum ekki fullkomnun á þessu tímabili eða því næsta en við ætlum að bæta okkar leik í hverri viku," sagði André Villas-Boas.

„Við erum ánægðir með að skapa nóg af færum til þess að vinna leiki og ætlum að einbeita okkur að því að halda því áfram. Við verðum að bæta gæðin og flæðið í okkar leik sem kemur bara með fleiri leikjum," sagði Villas-Boas en hvað fannst honum um 8-2 sigur Manchester United á Arsenal.

„Þetta voru ekki venjuleg úrslit og svona gerist ekki oft. Manchester United spilaði þarna fullkominn leik," sagði Villas-Boas en hvernig verður toppbaráttan í vetur.

„Það eru fimm félög sem berjast við United um titilinn en það eru City, Liverpool, Chelsea og Arsenal. Ég er ekki heldur það vitlaus að minnast ekki á Tottenham því það er ekkert ósennilegt að þær bætist líka í hópinn," sagði Villas-Boas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×