Enski boltinn

Agüero með þrennu í sigri City og Stoke vann Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero.
Sergio Aguero. Mynd/AP
Manchester City hélt sýningunni og sigurgöngu sinni áfram í ensku úrvalsdeildinni með því að vinna 3-0 sigur á Wigan þar sem að Argentínumaðurinn Sergio Agüero skoraði öll mörkin.

Andrei Arshavin tryggði Arsenal fyrsta deildarsigur sinn á tímabilinu en Liverpool þurftu að sætta sig við fyrsta tapið þegar liðið tapaði 0-1 á útivelli á móti Stoke City. Tottenham vann einnig fyrsta sigur sinn og Emmanuel Adebayor skoraði í fyrsta leik sínum.

Chelsea fagnaði sínum þriðja sigri í röð þegar liðið vann 2-1 útisigur á Sunderland. Chelsea gerði markalaust jafntefli við Stoke í fyrsta leik en hefur náð í níu stig í síðustu þremur leikjum.

Manchester City hefur nú tólf stig og markatöluna 15-3 eftir 3-0 sigur á Wigan á heimavelli sínum. Sergio Agüero skoraði þrennu og hefur því skorað fimm mörk í tveimur heimaleikjum liðsins á tímabilinu.

Sergio Agüero skoraði fyrsta markið á 13. mínútu eftir sendingu frá David Silva og David Silva fiskaði síðan víti á 18. mínútu en Carlos Tévez lét Ali Al-Habsi verja frá sér vítið.

Samir Nasri kom inn á sem varamaður fyrir Carlos Tevez á 61. mínútu og var búinn að leggju upp mark fyrir Sergio Agüero tveimur mínútum síðar. Agüero innsiglaði síðan þrennuna sex mínútu seinna eftir stungusendingu frá David Silva.

Arsenal landaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu þegar liðið vann nýliða Swansea 1-0 á heimavelli. Andrei Arshavin sem hafði aðeins skorað eitt mark í síðustu tuttugu leikjum sínum fékk algjöra gjöf frá Michael Vorm, markverði Swansea á 40. mínútu og skoraði eina mark leiksins.

John Terry og Daniel Sturridge komu Chelsea í 2-0 með marki í sitthvorum hálfleiknum en mark Sturridge kom eftir stoðsendingu frá Raúl Meireles sem var í byrjunarliðinu. Dong-Won Ji minnkaði muninn í uppbótartíma.

Jonathan Walters tryggði Stoke 1-0 sigur á Liverpool með marki út víti á 21. mínútu sem var dæmt á Jamie Carragher fyrir brot á umræddum Walters. Þetta er fyrsta tap Liverpool á tímabilinu en lærisveinar Kenny Daglish náðu í sjö stig í fyrstu þremur leikjunum.

Emmanuel Adebayor skoraði í fyrsta deildarleiknum með Tottenham og það eftir stoðsendingu frá Scott Parker. Tottenham vann þarna 2-0 útisigur á Wolves með tveimur mörkum á síðustu 22 mínútunum en Jermain Defoe skoraði seinna markið.



Úrslit og markaskorar í ensku úrvalsdeildinni í dag:

Arsenal-Swansea 1-0

1-0 Andrei Arshavin (40.)

Everton-Aston Villa 2-2

1-0 Leon Osman (19.), 1-1 Stilian Petrov (63.), 2-1 Leighton Baines (69.), 2-2 Gabriel Agbonlahor (83.)

Manchester City-Wigan 3-0

1-0 Sergio Agüero (13.), 2-0 Sergio Agüero (63.), 3-0 Sergio Agüero (69.)

Stoke-Liverpool 1-0

1-0 Jonathan Walters, víti (21.)

Sunderland-Chelsea 1-2

0-1 John Terry (18.), 0-2 Daniel Sturridge (51.), 1-2 Dong-Won Ji (90.+1)

Wolverhampton-Tottenham 0-2

0-1 Emmanuel Adebayor (68.), 0-2 Jermain Defoe (80.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×