Enski boltinn

Sunderland búið að lána Asamoah Gyan til Al Ain

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Asamoah Gyan.
Asamoah Gyan. Mynd/Nordic Photos/Getty
Asamoah Gyan hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Sunderland í bili því félagið er búið að lána hann til Al Ain liðsins sem er frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Asamoah á þrjú ár eftir af samingi sínum við Sunderland og það er ætlun Sunderland-manna að hann snúi aftur á Leikvang Ljósanna á næstu leiktíð.

Steve Bruce, stjóri Sunderland, var ekki ánægður með þróun mála hjá Ganamanninum Asamoah Gyan en Bruce borgaði fyrir hann metfé (13 milljónir punda) í ágúst 2010.

Asamoah Gyan skoraði jöfnunarmark Gana á móti Englandi á Wembley í mars og hann var orðaður við mörg félög á meðan félagsskiptaglugginn var opinn. Bruce kvartar yfir umboðsmönnunum sem voru margir að hvísla í eyra Gyan.

„Síðan að hann skoraði í þessum leik á Wembley þá hafa sníkjudýrin verið út um allt að rugla hann í rýminu," sagði Steve Bruce.

„Það eru allir að hvísla í eyrað á honum og plana einhverja nýja samninga. Hann spilaði mjög vel á móti Englandi á Wembley en síðan þá hefur eitthvað verið að trufla hann," sagði Bruce en Gyan hefur aðeins skorað 1 mark í síðustu 11 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann var að fara til Real Madrid, til Bayern Munich, til Valencia og til Atletico Madrid. Það er mjög erfitt að einbeita sér þegar svona miklar vangaveltur eru í kringum þig, sagði Bruce sem kvartar undan fólki sem var á eftir skjótfengnum gróða.

Gyan skoraði 10 mörk í 31 deildarleik í fyrra en átti enn eftir að skora í 3 leikjum á þessu tímabili. Sunderland mætir Chelsea á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×