Ole Gunnar Solskjær, fyrrum leikmaður Manchester United, stýrði Molde í fyrsta sinn í norsku úrvalsdeildinni um helgina en varð að sætta sig við 0-3 tap á móti nýliðum Sarpsborg 08.
„Sem betur fer eru tvær vikur í næsta leik. Ef við hefðum byrjað vel þá hefðum við ekki viljað fá þetta landsleikjahlé en nú fáum við tvær góðar vikur til þess að bæta okkar leik," sagði Ole Gunnar Solskjær eftir leik.
„Þeir skoruðu tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks og leikur okkar hrundi. Sarpsborg spilaði af miklum krafti og við áttum ekkert svar," sagði Ole Gunnar.
Solskjær tók við Molde-liðinu í nóvember en hann hafði starfað fyrir Manchester United eftir að hann lagði skóna á hilluna.

