Enski boltinn

Song vill fá Henry til Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger.
Thierry Henry og Arsene Wenger. Nordic Photos / Getty Images
Alex Song, leikmaður Arsenal, vill gjarnan að Thierry Henry komi aftur til félagsins nú þegar að bandaríska MLS-deildin er í fríi.

Henry lék í átta ár með Arsenal og er markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi. Hann fór árið 2007 til Barcelona og er nú hjá New York Red Bulls í Bandaríkjunum.

Hann hefur verið að æfa með Arsenal síðustu daga og vikur þar sem tímabilinu í Bandaríkjunum lauk í nóvember. Til greina kæmi að hann myndi gera lánssamning við Arsenal og spila með liðinu þar til í mars.

Það gæti reynst liðinu sérstaklega vel þar sem að sóknarmennirnir Gervinho iog Marouane Chamakh eru að taka þátt í Afríkukeppninni sem hefst síðar í mánuðinum.

„Ég hef verið að gantast með honum á æfingum og sagt honum að hann gæti enn spilað með okkur," sagði Song við franska fjölmiðla. „En hann svarar mér aldrei - brosir bara til mín."

„Hann hefur náð ótrúlegum árangri á ferlinum og þarf ekkert að sanna fyrir öðrum. Hann getur hins vegar hjálpað okkur og leikmaður eins og hann gæti gert mikið fyrir okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×