Enski boltinn

Kolo Touré og Emmanuel Adebayor slógust á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor.
Emmanuel Adebayor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City mætir Arsenal í kvöld í ensku úrvalsdeildinni en það setti sinn svip á undirbúning City-liðsins fyrir leikinn að gömlu Arsenal-mennirnir Kolo Touré og Emmanuel Adebayor slógust á "léttri" æfingu í gær.

Adebayor og Touré foru að slást þegar leikmenn voru að spila leik sem átti að vera leikur án snertinga en það hefur ekki verið gott á milli þessara leikmanna að undanförnu. Eitthvað gerðist í leiknum sem varð til þess að allt sauð upp úr á milli þeirra.

Félagar þeirra í liðinu gripu þó fljótt inn í og skildu þá í sundur og stjórinn Roberto Mancini ákvað síðan að skipta aftur í lið þannig að þeir Adebayor og Touré voru í sama liði. Eftir það kláraðist æfingin á frekari vandamála.

Þetta er enn eitt dæmið um ósætti og vandræði innan leikmannahópsins hjá Manchester City en fyrr á tímabilinu lenti þeim Mario Balotelli og Jérôme Boateng saman á æfingu og þá fóru þeir Adebayor og Vincent Kompany rífast í tapleik á móti Wolves í vikunni á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×