Fótbolti

Pearce og Powell stýra Ólympíuliðum Bretlands í knattspyrnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stuart Pearce, þjálfari U-21 liðs Englands, mun stýra karlaliði Bretlands í knattspyrnu á Ólympíuleikunum í Lundúnum á næsta ári. Hope Powell, þjálfari kvennalandsliðs Englands undanfarin þrettán ár, mun stýra kvennaliðinu.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í morgun. Það hefur þótt afar umdeilt í Bretlandi að tefla fram sameiginlegu knattspyrnuliði á Ólympíuleikunum og þá sérstaklega í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.

Ólíklegt þykir að knattspyrnumenn frá þessum löndum muni gefa kost á sér í sameiginlegt lið. Knattspyrnusamböndum landanna þykir það ógna sjálfstæði þeirra að teflt verið fram einu landsliði frá öllu Bretlandi.

Aðeins leikmenn sem eru fæddir árið 1989 eða síðar geta gefið kost á sér í Ólympíuliðið en það er þó pláss fyrir þrjá eldri leikmenn í hverju liði. Hinn 36 ára gamli David Beckham hefur til að mynda lýst yfir áhuga sínum á að spila á Ólympíuleikunum.

„Ég var svo heppinn að fá að spila með enska landsliðinu á EM 1996 og veit því hversu sérstakt það er að fá að taka þátt í stórmóti í knattpyrnu í sínu heimalandi,“ sagði Pearce í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×