Enski boltinn

Van Persie getur ekki hugsað sér að fara frá Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie fagnar marki með Arsenal.
Robin van Persie fagnar marki með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Robin van Persie segir að hann ætli sér að halda áfram að berjast um titla hjá Arsenal um ókomna tíð.

Van Persie hefur verið í frábæru formi að undanförnu en hann var lengi frá vegna meiðsla á fyrri hluta tímabilsins.

Hann segir í samtali við enska fjölmiðla að sumir hafi afskrifað hann eða einfaldlega gleymt sér.

„Ég held að fólk hafi gleymt mér svolítið. Ég skynjaði það þegar ég gerði þrennuna gegn Wigan,“ sagði hann.

„Ég fékk það á tilfinninguna að það hafi komið einhverjum á óvart að þetta gæti ég enn gert. Miðað við það sem ég las í blöðunum voru einhverjir sem áttu greinilega von á því að mér myndi ekki takast að snúa til baka jafn sterkur og ég var áður.“

„Þegar maður spilar ekki þá vill fólk oft gleyma manni. Það er alltaf einhver nýr leikmaður og hlutirnir eru fljótir að breytast í boltanum.“

Van Persie kom árið 2004 til Arsenal frá Feyenoord og þrátt fyrir að liðið hafi ekki unnið neina titila síðan 2005 þá hefur hann ekki í hyggju að fara neitt annað.

„Arsenal er besta liðið fyrir mig. Það sem mestu máli skiptir fyrir mig er að ég vil vinna titla með Arsenal og ekki neinu öðru liði.“

„Ég veit að það er hægt að vinna marga mismunandi titla með mörgum liðum í hinum ýmsu löndum en ég vil gera það á okkar máta og með Arsenal.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×