Enski boltinn

Tevez ekki lengur fyrirliði City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tevez í baráttunni við Brynjar Björn Gunnarsson í mars síðastliðnum.
Tevez í baráttunni við Brynjar Björn Gunnarsson í mars síðastliðnum. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur tilkynnt Carlos Tevez að hann sé ekki lengur fyrirliði liðsins. Varnarmaðurinn Vincent Kompany hefur nú tekið við því hlutverki.

Kompany hefur verið fyrirliði City í fjarveru Tevez að undanförnu en sá síðarnefndi hefur lítið spilað í upphafi tímabilsins.

Tevez hefur marglýst því yfir að hann vilji losna frá City en félaginu tókst ekki að selja hann nú í sumar. „Ástæðurnar fyrir þessu eru einfaldar," sagði Mancini við enska fjölmiðla.

„Carlos vildi fara frá félaginu af fjölskylduástæðum. Ég hef skilning á því en Carlos er enn hjá okkur því okkur tókst ekki að finna lausn á hans málum. Hann er frábær leikmaður og getur vel skorað 20 mörk á tímabili fyrir okkur. En ég ákvað í sumar að Vinnie myndi verða fyrirliðinn okkar."

Mancini bætti við að Tevez hefði tekið fréttunum vel en það er ljóst að hann mun þurfa að hafa fyrir hlutunum ætli Tevez sér aftur að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu. Edin Dzeko hefur byrjað tímabilið mjög vel og Sergio Agüero er nýkominn til félagsins frá Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×