Enski boltinn

Liverpool hafði aftur betur gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maxi Rodriguez fagnar marki sínu í kvöld.
Maxi Rodriguez fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool komst í kvöld áfram í undanúrslit ensku deildabikarkeppninnar með 2-0 sigri á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem að Liverpool hefur betur gegn Chelsea í Lundúnum en liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni fyrir níu dögum síðan. Liverpool vann þá 2-1 sigur.

Maxi Rodriguez skoraði fyrsta mark þess leiks og hann endurtók leikinn í kvöld með marki af stuttu færi eftir snarpa sókn. Jordan Henderson gaf góða sendingu inn fyrir slaka vörn Chelsea á Craig Bellamy, hann gaf á Maxi sem skoraði af stuttu færi.

Markið kom á 58. mínútu og Liverpool komst í 2-0 fimm mínútum síðar. Aftur átti Bellamy stoðsendinguna en hann gaf háan bolta inn á teig heimamanna. Varnarmenn Chelsea gleymdu Martin Kelly sem skallaði boltann í netið.

Alex fékk reyndar dæmda á sig vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleikinn fyrir að handleika knöttinn í vítateig Chelsea. Andy Carroll lét hins vegar Ross Turnbull, sem stóð í marki Chelsea í kvöld, verja frá sér.

Þetta var sjötta tap Chelsea undir stjórn Andre Villas-Boas í öllum keppnum í haust en mikið hefur verið fjallað um hvort hann sé öruggur í starfi í enskum fjölmiðlum síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×