Enski boltinn

Fyrsti bikar tímabilsins í húsi hjá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna í dag.
Leikmenn Manchester City fagna í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City náði í fyrsta bikar tímabilsins í dag þegar liðið vann 3-0 sigur á ítalska liðinu Inter Milan í úrslitaleik Dublin-bikarsins. Mario Balotelli, Edin Dzeko og Adam Johnson voru á skotskónum í leiknum.

David Silva var aðalmaðurinn á bak við fyrstu tvö mörkin en Shaun Wright-Phillips lagði upp síðasta markið fyrir Adam Johnson.

Manchester City vann 3-0 sigur á írska úrvalsliðinu í gær og fylgdi því eftir með öðrum öruggum sigri í dag. Mancini gaf þó ekki mikið fyrir þennan fyrsta bikar tímabilsins.

„Þetta var ekki mikilvægur leikur en það sem var mikilvægt var að fá 90 mínútur til að undirbúa okkur fyrir leikinn í næstu viku. Það er erfitt að spila tvo leiki á tveimur dögum en það skipti máli að ná góðum undirbúningi fyrir næsta leik," sagði Mancini en framundan er leikur á móti nágrönnunum í Manchester United um Samfélagsskjöldinn um næstu helgi.

Mancini hrósaði Mario Balotelli fyrir frammistöðuna í dag. „Ég var mjög ánægður með hvernig Mario Balotelli spilaði og ég er viss um það að ef að hann spilar svona á þessu tímabili þá verður hann mikilvægur leikmaður fyrir okkur," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×