Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sendi í kvöld Ole Gunnar Solskjær hamingjuóskir eftir að Molde tryggði sér í kvöld norska meistaratitilinn í knattspyrnu.
Molde varð í kvöld meistari í fyrsta sinn í 100 ára sögu félagsins en á fyrsta tímabili Solskjær sem þjálfara liðsins. Hann kom til félagsins frá Manchester United, þar sem hann var lengi leikmaður og síðar þjálfari varaliðsins.
Ferguson sendi Solskjær SMS-skeyti í kvöld eftir því sem fram kemur í norskum fjölmiðlum og þá óskaði Rio Ferdinand, leikmaður United, honum til hamingju á Twitter-síðunni sinni.
Ferdinand spáir því einnig að ekki líði á löngu þar til að Solskjær verði orðinn knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni.
Ferguson og Ferdinand sendu Solskjær hamingjuóskir
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
