Enski boltinn

Milljarðaviðskipti á Merseyside í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AFP
Það snerist allt í kringum Liverpool á lokadegi félagaskiptagluggans enska boltans í gær og á endanum setti félagið tvö milljarðamet. Fyrst með því að kaupa Andy Carroll frá Newcastle fyrir hæstu upphæð sem borguð hefur verið fyrir enskan leikmann og svo með því að selja Fernando Torres til Chelsea fyrir hæstu upphæð sem enskt félag hefur greitt fyrir leikmann.

Liverpool gekk einnig frá kaupunum á Luis Suarez í gær og því voru heildarviðskipti félagsins 31. janúar 2011 í kringum 108 milljónir enskra punda sem teljast vera um 20 milljarðar íslenskra króna.

Það lá í loftinu allan gærdaginn að Fernando Torres væri á leið til Chelsea fyrir 50 milljónir punda en Liverpool staðfesti loks söluna á leikmanninum rétt fyrir klukkan hálf átta. Torres átti þá eftir að fara í læknisskoðun og semja um sín kjör við Chelsea.

Það var ekki ljóst í gær hvort Torres fengi að spila með Chelsea á móti Liverpool um næstu helgi en það yrði þá ein sögulegasta frumraun leikmanns hjá liði í ensku úrvalsdeildinni.

Andy Carroll.Mynd/AP

Það var meiri dramatík í kringum kaup Liverpool á Andy Carroll frá Newcastle. Newcastle hafnaði fyrstu tveimur tilboðum Liverpool en féllst loksins á það að selja leikmanninn þegar Carroll sjálfur bað um að vera seldur.

Carroll kostaði Liverpool á endanum 35 milljónir punda og bætti því met Rio Ferdinand sem var áður dýrasti enski leikmaðurinn frá því að Manchester United keypti hann frá Leeds United árið 2002.

Til að kóróna milljarðadaginn 31. janúar 2011 þá gekk Liverpool einnig frá kaupunum á Luis Suarez frá Ajax fyrir 22,7 milljónir punda í gær og mun Úrúgvæinn spila í treyju númer sjö hjá félaginu. Suarez skrifaði undir samning til ársins 2017.

Það varð hins vegar ekkert af því að Liverpool keypti Charlie Adam frá Blackpool eða Micah Richards frá Manchester City. Liverpool bauð 10 milljónir í Adam og 20 milljónir í Richards en félög þeirra vildu ekki selja sína leikmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×