Enski boltinn

Bolton áfram í bikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lee fagnar marki sínu í dag.
Lee fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Bolton er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir 3-2 sigur á Birmingham á útivelli í dag. Varamaðurinn Chung-Yong Lee skoraði sgurmarkið í lok leiksins.

Johan Elmander kom Bolton yfir snemma í leiknum en Cameron Jerome jafnaði metin fyrir Birmingham með snyrtilegu skoti.

Kevin Davies skoraði svo úr vítaspyrnu og kom Bolton aftur yfir, eftir Kevin Curtis hafði brotið á honum. Skömmu áður hafði Davies skorað mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.

Kevin Phillips skoraði svo glæsilegt mark úr mjög erfiðri stöðu og jafnaði þá aftur metin fyrir Birmingham. Phillips fékk sendingu inn að teig og lyfti boltanum yfir Jaaskaleinen í marki Bolton, þó svo að hann hafi ekki verið í jafnvægi og með varnarmanninn Gary Cahill í sér.

En Lee, sem hafði komið inn á sem varamaður á 61. mínútu, tryggði Bolton að lokum sigurinn með skoti af stuttu færi skömmu áður en leiktíminn rann út.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn í liði Bolton í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×