Enski boltinn

Thompson: Stuðningsmenn Liverpool snerust gegn Hodgson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Phil Thompson, til hægri.
Phil Thompson, til hægri. Nordic Photos / Getty Images
Phil Thompson, fyrrum varnarmaður Liverpool, segir að það hafi verið ótrúlegt að fylgast með því hvernig stuðingsmenn félagsins snerust gegn Roy Hodgson.

Hodgson sagði eftir að liðið tapaði fyrir Wolves fyrir stuttu að hann hefði „aldrei fengið að finna fyrir þessum fræga Anfield-stuðningi." Hann þurfti síðar að biðja stuðningsmenn Liverpool afsökunar á þessum ummælum.

Hodgson var hjá Liverpool í hálft ár og segir Thompson það vera of skamman tíma.

„Sex mánuðir eru of stuttur tími, ekki bara hjá Liverpool heldur á þetta við hvaða knattspyrnustjóra sem er," sagði Thompson. „Það ættu allir að fá sitt tækifæri en það sem við höfum séð hjá Liverpool síðustu mánuðina er fordæmislaust. Hegðun stuðningsmenna og hvernig þeir hafa snúist gegn Hodgson hefur verið án hliðstæðu. Meira að segja fékk Graeme Souness aldrei þá meðferð sem Hodgson fékk hjá stuðningsmönnunum og voru það erfiðir tímar."

Hann segir enn fremur að stuðningsmenn hafi haft mikil áhrif á þá ákvörðun að reka Hodgson eins og var gert í morgun.

„Það hefur alltaf ríkt svo skoðun meðal stuðningsmanna að við værum sérstakir - svona gerðum við ekki. Við stöndum saman og stöndum með félaginu. Nú voru stuðningsmennirnir byrjaðir að gera lítið úr stjóranum með söngvum um að hann yrði rekinn næsta dag. Það er ótrúlegt," sagði Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×