Fótbolti

Eigandi Neuchatel Xamax rekur nýráðið þjálfarateymi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos/AFP
Tsjetsjeninn Bulat Chagaev, eigandi svissneska knattspyrnufélagsins Neuchatel Xamax síðan í maí, hefur rekið nýráðið þjálfarateymi sitt eftir 2-0 tap gegn meisturum Basel um helgina. Chagaev hafði áður rekið fyrri þjálfara, skrifstofufólk og sagt um samningum við styrktaraðila.

Það er óhætt að segja að Chagaev fari óhefðbundnar leiðir í leit sinni að árangri. Töp í tveimur fyrstu leikjum Xamax í deildinni var greinilega eitthvað sem hann átti ekki von á.

„Þeir geta ekki beðið okkur um að framkvæma kraftaverk,“ sagði Francois Ciccolini knattspyrnustjóri sem fékk að taka poka sinn um helgina.

Sonny Anderson úr þjálfarateyminu og fyrrum framherji Barcelona fékk einnig að taka poka sinn.

„Hann á meirihluta í félaginu. Hann tekur ákvarðanirnar,“ sagði Anderson.

Í síðustu viku fékk brasilíski markvörðurinn Rodrigo Galatto að taka pokann sinn eftir einn leik á milli stanganna. Jean-Francois Bedenik sem tók sæti hans í liðinu þurfti að hirða knöttinn úr netinu sínu eftir aðeins 83 sekúndna leik í gær.

Fróðlegt verður að fylgjast með vinnubrögðum Chagaev næstu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×