Íslenski boltinn

Ingimundur Níels kemur aftur heim til Fylkis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingimundur Níels Óskarsson:
Ingimundur Níels Óskarsson: Mynd/Stefán
Ingimundur Níels Óskarsson á ekki von á öðru en að hann snúi aftur heim í Fylki eftir nokkurra mánaða dvöl hjá norska B-deildarliðinu Sandnes Ulf.

„Það gekk eiginlega ekkert allt of vel mér hjá mér sjálfum, þó svo að liðinu hafi gengið ágætlega,“ sagði hann en Sandnes Ulf vann sér á dögunum sæti í norsku úrvalsdeildinni. „Þetta var þó ágæt dvöl og ævintýri fyrir okkur í litlu fjölskyldunni.“

Hann er óánægður með hversu lítið hann fékk að spila. „Það gengur illa að vinna sér sæti í liðinu þegar vel gengur en þeir töpuðu engu að síður fyrstu þremur leikjunum eftir að ég kom hingað út og skoruðu ekki mark. Á meðan skoraði ég fimm mörk í þremur leikjum með varaliðinu og var verðlaunaður með tveimur mínútum í næsta leik liðsins. Það voru ákveðin skilaboð sem ég fékk,“ sagði Ingimundur. „Ég er þó alls ekki fúll og skildi við liðið á góðum nótum.“

Hann er enn í Noregi en kemur heim um miðjan mánuðinn og byrjar þá að æfa með Fylki. „Mér líst vel á það sem er að gerast hjá Fylki. Ásmundur [Arnarsson] er öflugur þjálfari sem ég þekki frá Fjölni og hann er búinn að mynda öflugt þjálfarateymi.“

Steinþór Freyr Þorsteinsson er á mála hjá Sandnes Ulf og er „aðalmaðurinn“ þar eins og Ingimundur lýsti því. „Hann var kosinn bestur af stuðningsmönnum sem eru líka mjög hrifnir af innköstunum hans. Kannski þarf ég að æfa mig betur í þeim í vetur,“ sagði hann í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×