Enski boltinn

Tevez: Það elskar enginn City-treyjuna meira en ég

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez sést hér leika á varnarmann West Brom áður en hann skorað eitt marka sinna um helgina.
Carlos Tevez sést hér leika á varnarmann West Brom áður en hann skorað eitt marka sinna um helgina. Mynd/AFP
Argentínumaðurinn Carlos Tevez hefur tjáð opinberlega tryggð sína til Manchester City og það er allt annað hljóð í honum en þegar hann heimtaði að vera seldur fyrr í vetur. Tevez skoraði þrennu í sigri City um helgina og er kominn með 18 mörk í 23 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ég labbaði aldrei út og það var aldrei ætlun mín að skaða félagið sama hvað væri í boði," sagði Carlos Tevez í viðtali á heimasíðu Manchester City.

„Ég held að það sé enginn sem elski City-treyjuna meira en ég. Ég sýni það í hverjum leik og gef alltaf allt mitt í hvern einasta leik," sagði Tevez.

„Ég tala ekki oft við pressuna því ég vil láta verkin tala inn á vellinum. Það er það mikilvægasta fyrir mér. Fólk vill kannski skjóta eitthvað á mig en mér líður vel hérna. Ég vil gera mitt besta í Manchester City treyjunni," sagði Tevez.

„Ég er farinn að njóta fótboltans enn meira og ég er mjög ánægður með hvernig bolta ég er að spila. Við erum síðan í baráttunni um Meistaradeildarsætin og þar viljum við einmitt vera," sagði Tevez.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×