Enski boltinn

Chicharito óttast ekki samkeppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chicharito fagnar í leik með Manchester United, ásamt Darren Fletcher.
Chicharito fagnar í leik með Manchester United, ásamt Darren Fletcher. Nordic Photos / Getty Images
Sóknarmaðurinn Javier Hernandez segist ekki óttast samkeppni um sæti í byrjunarliði Manchester United, enda sé samkeppni í öllum liðum.

Wayne Rooney er fastamaður í liði United en auk hans eru Michael Owen, Dimitar Berbatov, Danny Welbeck, Mame Biram Diouf og Federico Macheda allir að berjast um sæti í byrjunarliðinu.

„Það er ekki vandamál,“ sagði Hernandez. „Ég hef lært að það ríkir samkeppni í öllum liðum. Það eru um 30 leikmenn á æfingasvæðinu hverju sinni en aðeins ellefu komast í byrjunarliðið. Þannig að þetta er erfitt.“

„Það verða því alltaf einhverjir fyrir vonbrigðum. En samkeppnin gerir mann líka að betri leikmanni. Leikmennirnir leggja allir mikið á sig á æfingasvæðinu og vilja þar með sanna að þeir eigi heima í byrjunarliðinu.“

Hernandez gekk til liðs við United sumarið 2010 og hefur notið mikillar velgengni hjá félaginu. „Það er ótrúlegt að fá að spila með Manchester United. Ég er enn að venjast því að klæðast rauðu treyjunni og vera í kringum þessa ótrúlegu leikmenn. Mér finnst enn með ólíkindum að sjá nafn mitt á leikskýrslunni.“

„Suma daga vakna ég og trúi þessu ekki. Ég bý í þessu frábæra landi og spila fyrir besta félagslið heims, í bestu deild heims. Ég er afar þakklátur fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×