Enski boltinn

Mancini: Það er ómöglegt að skora 3 til 4 mörk í öllum 38 leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, þurfti að horfa upp á sína menn tapa stigum á móti West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í dag en WBA varð þá fyrsta liðið til að halda hreinu á móti þeim í deildinni.

„Þetta var mjög erfitt fyrir okkur í dag og við vissum það líka fyrir leikinn. Ef þú nærð ekki að skora í fyrri hálfleik á móti liði sem er með alla menn fyrir aftan boltann þá verður þetta erfitt," sagði Roberto Mancini.

„Við fengum færi sem við áttum að nýta en kannski var spilið okkar of hægt í fyrri hálfleiknum. Það er ómöglegt að skora 3 til 4 mörk í öllum 38 leikjunum. Það munu koma upp leikir þar sem við náum ekki að skora. Við reyndum allt í dag og vildum vinna en það bara tókst ekki," sagði Mancini.

Manchester City var búið að skora 53 mörk í fyrstu 17 deildarleikjum sínum eða 3,1 að meðaltali í leik. Liðið heldur áfram toppsætinu á betri markatölu en nágrannar þeirra í United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×