Fótbolti

Bolt vill komast á reynslu hjá toppliði í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Usain Bolt er fljótasti maður í heimi en hann dreymir um að vera atvinnumaður í fótbolta hjá einum af stóru klúbbunum í Evrópu. Helst vill Jamaíkamaðurinn spila með Manchester United enda er hann harður stuðningsmaður félagsins.

„Mér er alvara með þessu. Ég trúi því að ég geti orðið góður fótboltamaður," sagði hinn 24 ára spretthlaupari þegar hann var spurður út það hvort hann væri virkilega að íhuga það að leggja fótboltann fyrir sig þegar hann hættir í frjálsum.

Usain Bolt er nú á leiðinni til Daegu í Suður-Kóreu þar sem hann stefnir á það að verja gullverðlaun sín frá því í Berlín fyrir tveimur árum.

„Það er erfitt að skipuleggja það að komast að hjá einu af toppklúbbunum en kannski er einhvert þeirra tilbúið að bjóða mér að koma á reynslu. Ég yrði samt fyrst að spila nokkra æfingaleiki til að sjá hver staðan væri á mér," sagði Usain Bolt.

Usain Bolt á bæði heimsmetið í 100 og 200 metra hlaupi og hann er líka handhafi Ólympíu- og Heimsmeistaragulls í báðum þessum greinum. Heimsmetið hans í 100 metra hlaupi er 9,58 sekúndur en heimsmet hans í 200 metra hlaupi er 19,19 sekúndur.

Það væri því algjör martröð fyrir varnarmenn að lenda í því að elta Usain Bolt þegar hann væri kominn á fulla ferð. Hvort boltinn væri límdur við tærnar hans á sama tíma er hinsvegar allt önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×