Fótbolti

Buffon: Þeir bjartsýnustu bjuggust ekki einu sinni við þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalir tryggðu sér í gær sæti í úrslitakeppni EM á næsta ári og fögnuður leikmanna og þjálfara var mikill eftir 1-0 sigur á Slóvenum í Flórens í gær. Markvörðurinn Gianliugi Buffon var afar sáttur í leikslok.

„Ég held að þeir allra bjartsýnustu hafi ekki einu sinni búist við því að við kæmumst svona auðveldlega upp úr okkar riðli," sagði Gianliugi Buffon en ítalska liðið hefur náð í 22 af 24 mögulegum stigum út úr fyrstu átta leikjum sínum. Þeir hafa nú átta stiga forskot á Serbíu þegar aðeins sex stig eru eftir í pottinum.

Cesare Prandelli, tók við landsliðinu eftir vonbrigðin á HM í Suður-Afríku síðasta sumar og hann er búinn að snúa við skútunni. Prandelli treystir á framherjana Giuseppe Rossi, Antonio Cassano og Mario Balotelli sem forveri hans í starfinu hafði enga trú á.

Rossi og Cassano byrjuðu leikinn og sköpuðu sér nokkur færi, Giampaolo Pazzini kom inn á og skoraði sigurmarkið og Mario Balotelli var nálægt því að skora í tvígang í lokin.

„Rossi og Cassano stóðu sig báðir vel og svo komu þeir Balotelli og Pazzini inn með sína reiði og ákveðni og stóðu sig líka vel," sagði Buffon og bætti við:

„Þessa vegna unnum við þennan leik. Þetta sýnir að við erum samheldinn hópur með sama markmið," sagði Buffon.

Miðverðirnir Andrea Ranocchia og Giorgio Chiellini hafa blómstrað fyrir framan Buffon og ítalska landsliðið hefur aðeins fengið á sig eitt mark í átta leikjum sínum í undankeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×