Enski boltinn

Chelsea fyrsta liðið til að vinna Man City í deildinni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Frank Lampard kom inn á sem varamaður og tryggði Chelsea 2-1 sigur á toppliði Manchester City á Brúnni í kvöld en þetta var fyrsta tap City-liðsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. City er nú "bara" með tveggja stiga forskot á Manchester United og nú er Chelsea komið upp í þriðja sætið, sjö stigum á eftir toppliðinu.

Daniel Sturridge var maðurinn á bak við bæði mörk Chelsea í leiknum, það fyrra kom eftir stoðsendingu hans og það síðara úr víti eftir að varnarmaður varði skot Sturridge með hendi. Chelsea lék manni fleiri síðustu 32 mínútur leiksins og nýtti sér það. City-liðið fékk draumabyrjun en Chelsea-menn komu til baka og tryggðu sér sinn fjórða sigur í röð í deild og Meistaradeild.

Mario Balotelli fékk tækifærið í byrjunarliðinu og var fljótur að koma Manchester City í 1-0. Hann fékk þá frábæra stungusendingu frá Sergio Aguero, lék á Peter Cech í markinu og skoraði í tómt markið áður en ein og hálf mínúta var liðin af leiknum.

Sergio Aguero var næstum því búinn að bæta við marki á 11. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Balotelli ú skyndisókn en skot hans fór á endanum framhjá eftir smá dans í vítateignum.

Raúl Meireles jafnaði metin á 34. mínútu eftir frábæran undirbúning Daniel Sturridge á hægri kantinum. Sturridge fór illa með Gael Clichy og gaf fyrir á Meireles sem skoraði laglega.

Gael Clichy fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir brot á Ramires á 58. mínútu og var City-liðið því manni færri síðasta hálftíma leiksins.

Daniel Sturridge fékk víti á 82. mínútu þegar Joleon Lescott varði skot hans með hendi. Frank Lampard hafði komið inn á sem varamaður á 73. mínútu en steig fram og skoraði af öryggi úr vítinu.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×