Enski boltinn

Toure: Hefði ekki komist í gegnum þetta án Yaya

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá þá bræður fagna í leik með Man. City á síðustu leiktíð.
Hér má sjá þá bræður fagna í leik með Man. City á síðustu leiktíð. Mynd. / Getty Images
Varnarmaðurinn Kolo Toure hjá Manchester City hefur nú fyrst tjáð sig í fjölmiðlum eftir að leikmaðurinn var dæmdur í sex mánaða bann þegar hann féll á lyfjaprófi.

Hann hefur alltaf haldið því fram að um mistök hafi verið að ræða og hann hafa einungis tekið megrunartöflur sem konan hans átti.

Bróðir hans Yaya Toure hefur verið honum innan handar á meðan á banninu stóð og studdi mikið við bakið á leikmanninum, en  Yaya Toure leikur einnig með Manchester City.

Kolo Toure snéri til baka til æfinga í síðustu viku og þarf að vinna sig á ný inn í hópinn hjá Man. City sem verður hægara sagt en gert.

„Yaya var sá fyrsti sem ég talaði við eftir að ég var dæmdur í bannið,“ sagði Kolo Toure.

„Ég útskýrði fyrir honum hvað hefði gerst og alveg síðan hefur hann stutt mig gríðarlega mikið, ég hefði ekki komist í gegnum þetta án hans“.

„Strákarnir í klúbbnum hafa einnig verið frábærir við mig eins og allt starfsfólkið í kringum liðið“.

Manchester City vann enska bikarinn á síðasta tímabili og missti Kolo Toure af úrslitaleiknum.

„Að missa af úrslitaleiknum var hræðilegt, mig hefur alltaf dreymt um að vinna þann bikar, en að sjá liðsfélagana vinna leikinn var magnað“.

„Mér líður vel þessa daganna og er eins og ég sé 25 ára á ný. Ég hef verið í þessari deild í tíu ár og á enn mikið eftir“.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×