Enski boltinn

Stjórnarformaður Swansea steinhissa á ásökunum Ipswich

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Priskin skoraði sigurmark Ipswich í deildabikarnum gegn Arsenal á Portman Road
Priskin skoraði sigurmark Ipswich í deildabikarnum gegn Arsenal á Portman Road Mynd/AFP Nordic
Huw Jenkins stjórnarformaður Swansea segist ekki vita til þess að neitt ósætti sé milli félagsins og Ipswich Town. Þetta sagði Jenkins eftir að síðarnefnda félagið kvartaði yfir því til ensku úrvalsdeildarinnar og vildi setja félagið í félagaskiptabann.

Simon clegg framkvæmdastjóri Ipswich segir Swansea hafa vanvirt samning sinn við Ungverjann Tamas Priskin sem var á láni hjá Swansea síðari hluta síðustu leiktíðar. Félagið eigi enn eftir að greiða Ipswich launakostnað auk viðbótargreiðslna í kjölfar þess að Swansea vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Við Simon Clegg ræddum saman fyrir nokkrum vikum varðandi hvort lánssamningur Tamas Priskin myndi ljúka fyrr en áætlað hafði verið. Síðan þá höfum við ekkert rætt saman," sagði Jenkins á heimasíðu Swansea.

„Við erum hissa og vonsviknir með yfirlýsingu Simon (Clegg) en munum fara í málið og ræða við hann og Ipswich snemma í næstu viku," bætti Jenkins við.

Clegg hafði látið hafa eftir sér að hann væri himinlifandi fyrir hönd Swansea með árangurinn að komast upp í úrvalsdeildina.

„En tilraun Jenkins til þess að endursemja og vísvitandi mistúlka skriflegan samning er ekki til sóma félagi sem nýverið náði í stærsta vinninginn sem í boði er í Championship-deildinni ásamt 90 milljóna punda aukagreiðslu," bætti Clegg við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×