Enski boltinn

Downing lagði inn félagaskiptabeiðni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Enska dagblaðið The Mirror fullyrðir í dag að Stewart Downing, leikmaður Aston Villa, sé búinn að leggja inn félagaskiptabeiðni til að þvinga í gegn að hann verði seldur til Liverpool.

Fyrir fáeinum dögum var Ashley Young seldur frá Aston Villa til Manchester United og mun Villa vilja fá nítján milljónir punda fyrir Downing. Liverpool er sagt tregt til að borga svo mikið fyrir hann.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er sagður hafa augastað á Charles N'Zogbia, leikmanni Wigan, og Dimitri Payet hjá St. Etienne ef honum tekst ekki að landa Downing.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Downing leggur inn félagaskiptabeiðni en hann gerði það þegar hann var á mála hjá Middlesbrough á sínum tíma. Þá var hann seldur til Aston Villa fyrir tólf milljónir punda.

Hann er 26 ára gamall og hefur þegar hafnað tilboði Aston Villa um nýjan samning. Hann á þó tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×