Fótbolti

Maradona: Risaeðlur hjá FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
„FIFA er rekið af risaeðlum sem vilja ekki missa völdin,“ sagði Diego Maradona, fyrrum landsliðsþjálfari Argentínu, og gagnrýndi forráðamenn Alþjóðlega knattspyrnusambandsins harkalega.

Hann segir að það hafi verið heimskulegt að kjósa Sepp Blattur aftur sem forseta FIFA á miðvikudaginn síðastliðinn. „Blatter er maður sem aldrei hefur sparkað í fótbolta,“ sagði Maradona á blaðamannafundi í Dúbæ, þar sem tilkynnt var að hann muni þjálfa Al Wasl næstu tvö árin.

„Þegar maður er með svona mikið vald þá er hægt að taka margar heimskulegar ákvarðanir. Það er það sem hefur verið að gerast hjá FIFA,“ sagði Maradona.

„Spilling og hagræðing knattspyrnuleikja er daglegt brauð. Þetta er ekki lengur fótbolti og svo sannarlega ekki það sem áhugamenn um fótbolta eiga skilið.“

Maradona segir að Blatter vilji vera við völd eins lengi og mögulegt er. „Þessir menn verða við völd þar til þeira verða 105 og 110 ára gamlir og því miður mun ekkert breytast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×