Fótbolti

Houllier útilokar ekki að þjálfa aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gerard Houllier hefur í fyrsta sinn tjáð sig opinberlega um sín mál eftir að hann hætti sem knattspyrnustjóri Aston Villa.

Houllier missti af síðustu vikum tímabilsins vegna hjartaveikinda. „Læknarnir ráðlögðu mér að byrja ekki aftur fyrr en í ágúst eða september og því var þetta erfitt,“ sagði Houllier við enska fjölmiðla.

„Þeir óttuðust líka að endurkoma mín gæti jafnvel frestast aftur þá. Ég skil það vel enda er áhættan fyrir hendi.“

Hann segir að forráðamenn Aston Villa séu enn að jafna sig á því þegar að Martin O'Neill hætti skyndilega sem stjóri félagsins fimm dögum áður en síðasta keppnistímabil hófst.

„Þeir höfðu ekki áhuga á því að fá sömu stöðu aftur upp fyrir næsta tímabil,“ sagði Houllier sem útilokar ekki að snúa aftur í þjálfun einn daginn.

„Ég er þjálfari - líf mitt snýst um þjálfun. Ég mun kannski búa í Birmingham í eitt ár til viðbótar. Ég hef það gott hér, bý út í sveit og er nálægt sjúkrahúsi. Þetta er því hinn fullkomni staður fyrir mig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×