Fótbolti

Bale og Fletcher geta spilað með breska ÓL liðinu í London

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Breska ólympíunefndin, BOA,  hefur greint frá því að knattspyrnumenn frá Englandi, Skotlandi, Wales, Norður-Írlandi og að sjálfsögðu Englandi séu gjaldgengir í ólympíulið Bretlands fyrir ÓL 2012 sem fram fara í London.  BOA segir að um tímamótasamkomulag sé að ræða en forsvarsmenn knattspyrnusambands Skotlands og Wales eru alls ekki sáttir við þessa niðurstöðu.

Þessi ákvörðun þýðir að leikmenn á borð við Gareth Bale hjá Tottenham og Darren Fletcher hjá Manchester United standa nú til  boða fyrir breska landsliðið. Bale er landsliðsmaður frá Wales og Fletcher er skoskur landsliðsmaður. 

Andy Hunt, stjórnarformaður BOA, segir að það hafi brotið gegn reglum alþjóða ólympíunefndarinnar að leyfa aðeins enska leikmenn í breska fótboltalandsliðið. Slík mismunun geti ekki átt sér stað og þess vegna hafi BOA tekið þá ákvörðun að taka inn leikmenn frá Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.

Ekki hefur verið gengið frá ráðningu á þjálfara fyrir breska ÓL liðið í fótbolta en nafn Sir Alex Ferguson hefur verið nefnt í því sambandi og einnig Harry Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×