Enski boltinn

Ekkert að frétta af endurkomu Steven Gerrard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, vill ekkert segja til um það hvenær hann sjái fyrir sér að fyrirliðinn Steven Gerrard snúi aftur inn í liðið. Gerrard hefur verið frá nær allt tímabilið vegna meiðsla.

Dalglish hefur staðfest það að Gerrard verður ekki með í leiknum á móti Wigan á morgun en enski landsliðsmaðurinn lék síðast með Liverpool-liðinu á móti Norwich City 22. október síðastliðinn.

Steven Gerrard glímdi við nárameiðsli í marga mánuði en meiddist síðan á ökkla þegar hann snéri aftur inn í liðið í lok september. Gerrard spilaði aðeins 4 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar af bara tvo þeirra í byrjunarliði.

Endurhæfing Gerrard gengur samt ágætlega samkvæmt fréttum frá Liverpool en það er ljóst að það verður engin áhætta tekin svo að hann meiðist ekki strax aftur eins og síðast.

Framundan er mikið leikjaálag um jól og áramót og því er líklegast að stuðningsmenn Liverpool þurfi að bíða fram á nýja árið til að sjá fyrirliða sinn aftur á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×