Enski boltinn

Bolton hafði betur í botnslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Blackburn grét í leikslok.
Þessi stuðningsmaður Blackburn grét í leikslok. Nordic Photos / Getty
Steve Kean er kominn með lið sitt aftur í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 tap fyrir Bolton á heimavelli í kvöld.

Grétar Rafn Steinsson var aftur valinn í byrjunarlið Bolton eftir að hafa verið fyrst og fremst notaður sem varamaður að undanförnu. Hann nýtti tækifærið vel og Owen Coyle, stjóri liðsins, getur andað léttar eftir að hafa fengið þrjú afar dýrmæt stig í botnbaráttunni.

Bolton komst með sigrinum upp úr fallsæti og er nú með tólf stig. Blackburn situr eftir í því neðsta með tíu stig og fátt virðist geta komið í veg fyrir að eigendur liðsins muni loksins fara að kröfum stuðningsmanna Blackburn og reka Steve Kean úr starfi knattspyrnustjóra.

Stuðningsmenn liðsins voru afar háværir í kvöld og kröfðust þess að Kean yrði rekinn. Þeir eru margir ekki heldur ánægðir með eigendurnar, fyrirtækið Venky's, og vilja helst að þeir haldi sömuleiðis á brott. Þeir púuðu svo duglega á sína menn eftir að flautað var til leiksloka.

Mark Davies og Nigel Reo-Coker skoruðu bæði mörk Bolton í fyrri hálfleik og var varnarleikur Blackburn skelfilegur í bæði skiptin. Yakubu náði að minnka muninn um miðbik síðari hálfleiksins en nær komust heimamenn ekki.

Þá mættust nýliðar Wolves og Norwich einnig í kvöld og skildu jöfn, 2-2. Norwich komst tvívegis yfir með mörkum Andrew Surman og Simeon Jackson en þeir Sylvan Ebanks-Blake og Roland Zubar skoruðu mörk Úlfanna. Það síðara kom átta mínútum fyrir leikslok.

Norwich er í góðum málum í níunda sæti deildarinnar með 21 stig en Wolves er í því sextánda með fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×