Enski boltinn

Refsingu Suarez andmælt harðlega í yfirlýsingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Liverpool sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem félagið lýsir yfir furðu sinni að aganefnd enska knattspyrnusambandsins hafi dæmt sóknarmanninn Luis Suarez í átta leikja bann.

Suarez er gefið að sök að hafa verið með kynþáttaníð í garð Patrice Evra, leikmann Manchester United, í leik liðanna í haust.

„Okkur þykir það með ólíkindum að það sé hægt að dæma Luis sekan þar sem ekkert annað en orð Patrice Evra liggja fyrir í þessu máli. Enginn annar á vellinum, ekki einu sinni liðsfélagar Evra í Manchester United eða þá dómarar leiksins, heyrði það sem Luis hafði átt að hafa sagt við hann," sagði meðal annars í yfirlýsingunni, sem má lesa í heild sinni hér.

Þá er sagt að Liverpool hafi alla tíð barist gegn kynþáttaníði og mismunun. Félagið hafi skoðað þetta mál ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að Suarez sé saklaus af ásökunum.

„Það er líka skoðun okkar að ásakanir þessa tiltekna leikmanns eiga ekki við rök að styðjast - ekki frekar en áður þegar hann hefur komið fram með álíka ásakanir," sagði í yfirlýsingunni.

Einnig er fullyrt að enska knattspyrnusambandið hafi alltaf ætlað sér að kæra Suarez fyrir meint brot, jafnvel áður en rætt var við hann í upphafi síðasta mánaðar.

„Við viljum einnig gjarnan vita hvort að enska knattspyrnusambandið ætli einnig að kæra Patrice Evra, sem viðurkenndi að hafa móðgað Luis Suarez með ljótu orðbragði á spænsku í leiknum. Luis sagði að hann hafi ekki heyrt umrædd ummæli sem segir sitt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×