Enski boltinn

Búinn að fá 903 milljónir í laun frá síðasta deildarleiknum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Bridge á æfingu með Manchester City.
Wayne Bridge á æfingu með Manchester City. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er óhætt að segja að bakvörðurinn Wayne Bridge sé ekki inn í myndinni hjá Roberto Mancini, stjóra Manchester City, enda hefur þessi fyrrum enski landsliðsmaður ekki spilað einn einasta deildarleik á tímabilinu.

Roberto Mancini vonast nú til að losna við leikmanninn í janúarglugganum en hinn 31 árs gamli Wayne Bridge lék sinn eina leik á tímabilinu í deildarbikarsigri á Birmingham í september. Bridge kláraði síðasta tímabil í láni hjá West Ham.

„Ég skil ekki af hverju sumir leikmenn, sem eiga möguleika á því að spila annarsstaðar, eru ekki tilbúnir að fara. Wayne er góður strákur en ég vona að hann fari í janúar," sagði Roberto Mancini og bætti við:

„Ég skil ekki rökin fyrir því að vera hjá félagi þar sem þú færð ekki að spila. Hann á möguleika á því að spila hjá öðru liði, kannski ekki í úrvalsdeildinni en allavega í b-deildinni," sagði Mancini.

Wayne Bridge er á eftir þeim Gael Clichy, Aleksandar Kolarov og Pablo Zabaleta í goggunarröðinni hjá Manchester City.

Bridge hefur fengið yfir 4,7 milljónir punda í laun síðan að hann spilaði sinn síðasta deildarleik með City fyrir ári síðan en það gerir um 903 milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×