Enski boltinn

Eggert fer til Wolves 1. janúar: Tilbúinn að taka næsta skref

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson. Mynd/Heimasíða Wolves
Íslenski landsliðsmaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson er orðinn nýjasti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur ákveðið að ganga til liðs við Wolves 1. janúar. Eggert er í viðtali inn á heimasíðu Úlfanna.

Eggert mun skrifa undir þriggja og hálfs árs samning en hann verður ekki leikmaður félagsins fyrr en félagsskiptaglugginn opnar. Eggert hefur þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára leikið með Hearts síðan tímabilið 2006-07.

„Ég er mjög ánægður og hlakka til að fá að byrja. Ég get ekki beðið eftir því að komast á æfingu og fara að berjast fyrir mínu sæti í liðinu," sagði Eggert Gunnþór á heimasíðu Úlfanna.

„Vonandi get ég komið með eitthvað inn í liðið og hjálpað félaginu," sagði Eggert.

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Ég heyrði fyrst af áhuga Wolves í síðustu viku en ég varð strax mjög spenntur því þetta er frábært tækifæri fyrir mig," sagði Eggert.

„Ég er búinn að vera í Skotlandi í langan tíma og fannst ég vera tilbúinn til að taka næsta skref. Wolves er flott félaga fyrir mig til að stíga það skref og vonandi kemst ég í liðið og get haldið áfram að bæta mig," sagði Eggert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×