Enski boltinn

Berbatov nýtti tækifærið - skoraði þrennu í stórsigri United á Wigan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United átti ekki í miklum vandræðum með því að vinna 5-0 stórsigur á Wigan í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en með þessum sigri náði United nágrönnum sínum í City að stigum.

Manchester United hefur þar með unnið fimm síðustu deildarleiki sína með markatölunni 17-1 og hefur ennfremur náð í 25 af 27 mögulegum stigum síðan að liðið steinlá 1-6 á heimavelli á móti Manchester Cty í október.

Dimitar Berbatov fékk tækifæri í byrjunarliðinu í fyrsta sinn síðan í september og skoraði þrennu. Búlgarinn var að skora í öðrum leiknum í röð því hann skoraði einnig í síðasta leik á móti Fulham eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Ji-Sung Park var búinn að koma Manchester United í 1-0 eftir átta mínútur þegar hann lagði boltann í markið eftir frábæran undirbúning frá fyrirliðanum Patrice Evra.

Wigan missti Conor Sammon af velli með rautt spjald sex mínútum fyrir hálfleik fyrir að gefa Michael Carrick olnbogaskot. Þetta var strangur dómur og það tók United aðeins tvær mínútur að nýta sér liðsmuninn.

Dimitar Berbatov skoraði þá eftir að hafa fengið fyrirgjöf frá Darron Gibson. Berbatov hafði tíma til að taka við boltanum og afgreiða hann í markið af stuttu færi.

Dimitar Berbatov skoraði sitt annað mark á 59. mínútu þegar hann snéri sér skemmtilega í teignum og skoraði með tánni eftir að hafa fengið sendingu frá Antonio Valencia.

Antonio Valencia skoraði fjórða markið sjálfur á 75. mínútu eftir að hafa fengið boltann frá Michael Carrick.

Dimitar Berbatov innsiglaði þrennuna sína með því að skora úr víti á 78. mínútu eftir að Ji-Sung Park hafði fiskað vítið.Þetta var fimmta og síðsta mark United í leiknum.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×