Enski boltinn

Berbatov orðaður við Leverkusen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn þýska liðsins Bayer Leverkusen eru sagðir hafa áhuga á að fá Búlgarann Dimitar Berbatov hjá Manchester United aftur í sínar raðir.

Berbatov fékk lítið að spila framan af tímabili en hefur nú skorað í tveimur leikjum í röð - nú síðast gerði hann þrennu í 5-0 sigri á Wigan.

Berbatov var á mála hjá Leverkusen í fimm ár áður en hann gekkst til liðs við Tottenham árið 2006 og svo Manchester United tveimur árum síðar.

Samningur hans við United rennur út í loka tímabilsins en Alex Ferguson, stjóri United, hefur hingað til ekki viljað selja hann. United á einnig þann kost að framlengja samninginn um eitt ár til viðbótar en fresturinn til þess rennur út 2. janúar næstkomandi.

„Þetta er meira en bara orðrómur," sagði umboðsmaður Berbatov við þýska fjölmiðla. „Leverkusen hefur áhuga á Dimitar en þetta veltur allt á því hvað United vill gera. Við þurfum að bíða til 2. janúar. Ef United vill framlengja samninginn þá verður það gert. Annars getur Dimitar farið frítt í sumar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×