Enski boltinn

Wenger vill lítið segja um Henry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, vill lítið segja um þann möguleika að Thierry Henry verði mögulega lánaður tímabundið til félagsins nú í vetur.

Henry er á mála hjá New York Red Bulls í bandarísku MLS-deildinni. Deildin er nú í fríi og hefur Henry verið að æfa með Arsenal að undanförnu.

Það er vel þekkt að leikmenn úr MLS-deildinni séu lánaðir til Evrópu á meðan ekkert er spilað í Bandaríkjunum. Landon Donovan mun til að mynda spila með Everton fram í marsmánuð.

„Það er engin frétt í þessu og ef við munum semja við einhvern leikmenn þá munum við láta fjölmiðla vita," sagði Wenger eftir 1-1 jafntefli sinna manna við Wolves í gær.

„Ég hef verið hér í Englandi í fimmtán ár og aldrei látið vita fyrirfram af þeim leikmönnum sem eru á leið til félagsins."

Sóknarmennirnir Marouane Chamakh og Gervinho munu báðir spila með landsliðum sínum í Afríkukeppninni í janúarmánuði og því gæti það reynst góð lausn fyrir Arsenal að njóta starfskrafta Henry á meðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×