Skaphundarnir Craig Bellamy hjá Liverpool og Joey Barton hjá QPR eru sagðir hafa farið í hár saman eftir leik liðanna um helgina.
Leikmennirnir byrjuðu að rífast út á velli eftir leikinn og nú er hermt að það hafi verið mjög heitt í kolunum í undirgöngunum. Svo heitt að það hafi þurft að draga þá frá hvor öðrum áður en hnefarnir fengu að tala.
Enska knattspyrnusambandið mun ekki aðhafast neitt í málinu þar sem komið var í veg fyrir slagsmál.
"Orðaforðinn var þó ekki við hæfi barna," sagði vitni að rifrildinu.
