Enski boltinn

Mancini: Getum vonandi spilað aðra 14 leiki í röð án þess að tapa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gael Clichy fær hér rautt spjald hjá Mark Clattenburg í kvöld.
Gael Clichy fær hér rautt spjald hjá Mark Clattenburg í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, gerði ósamræmi í dómgæslu að umræðuefni eftir 1-2 tap á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en þetta var fyrsta deildartap City-liðsins á tímabilinu.

„Leikurinn breyttist við brottreksturinn," sagði Roberto Mancini en Gael Clichy fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir brot á Ramires á 58. mínútu og var City-liðið því manni færri síðasta hálftíma leiksins.

„Dómarinn var alveg fullviss þegar Daniel Sturridge skýtur í höndina á Joleon Lescott af fimm metra færi en hann sá ekki neitt athugvert þegar hann var aðeins í þriggja metra fjarlægð þegar David Silva var felldur í fyrri hálfleiknum," sagði Roberto Mancini en Frank Lampard skoraði sigurmark Chelsea úr víti á 82. mínútu.

Manchester var fyrir leikinn búið að spila fjórtán fyrstu deildarleiki sína án þess að tapa og búið að ná í 38 af 42 mögulegum stigum. Eftir þetta tap er forskotið aðeins tvö stig á nágranna þeirra í Manchester United.

„Ég vona að við getum spilað aðra 14 leiki í röð án þess að tapa," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×